Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir innanríkisráðuneytisins á sviði útlendingamála fram til 1. janúar 2015

IRR12020245

Ár 2014, 21. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR12020245

 

Kæra A

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. febrúar 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra A, fd. […], ríkisborgara X (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. febrúar 2012, um að synja kæranda um útgáfu dvalarleyfis á Íslandi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Af kæru verður ráðið að sú krafa sé gerð að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umbeðið leyfi veitt.

Þá er í kæru gerð krafa um að ráðuneytið fresti réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og synjaði ráðuneytið þeirri beiðni með ákvörðun sinni, dags. 26. apríl 2012.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem fékk vegabréfsáritun til Íslands þann […], gekk þann […] í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og sótti í kjölfarið, þann 14. júlí 2011,um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins. Þeirri umsókn var synjað með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar þann 7. febrúar 2012 þar sem stofnunin taldi fyrir hendi rökstuddan grun um að til hjúskaparins hefði verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis á Íslandi.

Framangreind ákvörðun var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi, dags. 15. febrúar 2012. Þann 16. febrúar 2012 óskaði ráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins frá Útlendingastofnun og bárust umbeðin gögn ráðuneytinu þann 27. febrúar 2012. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, gaf ráðuneytið kæranda færi á að koma á framfæri frekari gögnum og sjónarmiðum teldi hann það nauðsynlegt og bárust ráðuneytinu athugasemdir kæranda þar að lútandi þann 16. október 2013. Með ákvörðun sinni, dags. 26. apríl 2012, hafnaði ráðuneytið beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

,,Lagarök:

Um umsókn þessa gilda lög nr. 96/2002 um útlendinga (hér eftir nefnd útlendingalög) og reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga.

Niðurstaða:

Í 5. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga segir að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi  sem sótt er um. Á umsókn segir að tilgangur dvalar umsækjanda á Íslandi sé: ,,Vera í návist eiginkonu“. Verður því farið með umsóknina sem umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 13. gr. útlendingalaga.

Heimild til veitingar dvalarleyfis fyrir aðstandendur er að finna í 13. gr. útlendingalaga og 1. mgr. 47. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Í 3. mgr. 13. gr. laganna segir:

,,Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.“

Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 20/2004 um breytingu á útlendingalögum eru í 2. gr. talin upp atriði sem geta bent til þess að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Segir meðal annars:

,,Skilyrði þess að neitað verði um dvalarleyfi fyrir aðstandanda fyrir maka er í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Þannig verður að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þessa átt geta til dæmis verið að aðilar hafa ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilja ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Í því sambandi má huga að því hvort sá maki, sem hér dvelst löglega, hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi. Sé samkvæmt framangreindu eða af öðrum ástæðum rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi verður umsækjandinn að sýna fram á annað.“

Eins og fram kemur hér að framan er það skilyrði fyrir synjun á dvalarleyfi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Er jafnframt tekið fram að glögg vísbending verði að vera til staðar og tekin dæmi um hvað geti talist vísbendingar í þá veru að um málamyndahjúskap sé að ræða. Athygli skal vakin á því að ekki er um tæmandi talningu á vísbendingum að ræða og er það því háð mati hverju sinni hvað teljist vera glögg vísbending.

Líkt og fram hefur komið höfðu umsækjandi og maki hans þekkst í stuttan tíma þegar þau gengu í hjúskap, eða um það bil tvo mánuði. Þá er […] aldursmunur á umsækjanda og maka hans. Maka umsækjanda þykir ósmekklegt og óviðeigandi að benda á aldursmun á umsækjanda og maka. Líkt og að framan segir er mikill aldursmunur ein sú vísbending um málamyndahjúskap sem sérstaklega er talin upp í athugasemdum með 13. gr. útlendingalaga. Útlendingastofnun metur í hvert og eitt skipti hvort atriði máls séu vísbendingar um að til hjúskapar sé stofnað á fölskum forsendum. Þegar litið er á gögn málsins í heild metur Útlendingastofnun það svo að umrædd atriði styðji grun stofnunarinnar um að hjúskapur kæranda og maka hans sé til málamynda.

Maki umsækjanda segir í greinargerð að spurningar sem lagðar hafi verið fyrir hana og umsækjanda í viðtölum við þau hjá Útlendingastofnun séu margar óskiljanlegar, óviðeigandi og nærgöngular. Útlendingastofnun bendir á stofnuninni ber skylda bæði skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í því felst að Útlendingastofnun ber að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru við úrlausn máls. Viðtöl við umsækjendur um dvalarleyfi eru tekin í þessu skyni og í þeim viðtölum spyr Útlendingastofnun þeirra spurninga sem stofnunin hefur metið nauðsynlegt að fá svar við til þess að mál teljist nægilega upplýst. Þegar kemur að veitingu dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar geta spurningar stofnunarinnar eðli málsins samkvæmt verið nærgöngular en þeirra er spurt til að mál sé nægilega upplýst og eru að mati Útlendingastofnunar ekki óviðeigandi. Hafi maka og umsækjanda þótt spurningar Útlendingastofnunar óskiljanlegar hefðu þau mátt koma þeim upplýsingum á framfæri svo unnt væri að útskýra þær betur fyrir þeim. Ekkert benti til þess að umsækjandi og maki hefðu ekki skilið þær spurningar sem lagðar voru fyrir þau í viðtölum hjá Útlendingastofnun og hefur maki umsækjanda ekki útskýrt hvaða spurningar stofnunarinnar voru þeim óskiljanlegar þegar þeirra var spurt.

Í viðtölum við umsækjanda og maka kom fram nokkuð ósamræmi í frásögnum þeirra, auk þess sem þekktu ekki einstaka þætti í lífi hvors annars. Umsækjandi vissi ekki fullt nafn maka síns og maki hans gat ekki skrifað nafn umsækjanda. Maki umsækjanda sagði jafnframt að umsækjandi væri fæddur […] en hið rétta er […]. Maki umsækjanda sagði í andmælabréfi til Útlendingastofnunar að hún ætti erfitt með að fara rétt með nöfn og tölur. Þrátt fyrir þá fullyrðingu maka umsækjanda þykir Útlendingastofnun undarlegt að umsækjandi og maki geti ekki skrifað nafn hvor annars eða viti ekki fullt nafn hvors annars eftir fimm mánaða kynni og þriggja mánaða hjónaband og að maki umsækjanda viti ekki fæðingardag hans og ár. Það er sérstaklega undarlegt þar sem afar stutt var síðan hann átti afmæli þegar viðtal við þau fór fram. Þá er ljóst að hvorki umsækjandi né maki hans vissu hvaða dag þau gengu í hjúskap, bæði sögðu það hafa verið fimmtudaginn […] en líkt og fram hefur komið er rétt dagsetning […].

Nokkuð ósamræmi er í frásögnum umsækjanda og maka hans. Umsækjandi sagði að þau hefðu keypt giftingarhringa í [X] en þeir hefðu ekki passað. Maki sagði þau hafa keypt hringa á Íslandi en umsækjandi gæti ekki verið með hring vegna vinnu sinnar og hún hefði fundið að hún gæti ekki gengið með hring. Umsækjandi kvaðst hafa beðið umsækjanda að giftast sér en maki hans segir það hafa verið öfugt. Þá gengur frásögn umsækjanda og maka af afmælum hvors annars að mati Útlendingastofnunar ekki upp. Sögðu þau bæði að þau hefðu ekki haldið upp á afmælið hennar og umsækjandi  hefði ekki gefið maka afmælisgjöf. Umsækjandi kvaðst ekki hafa vitað að maki hefði átt afmæli því hann hafi ekki verið byrjaður að búa með henni. Maki á afmæli […], að sögn umsækjanda og maka fóru þau að búa saman strax og þau voru gengin í hjúskap. Þau hafa því búið saman á afmælisdegi maka umsækjanda. Umsækjandi kvaðst hafa verið í afmæli hjá vinkonu móður sinnar á afmælisdegi sínum. Hann hafi ekki hitt maka þennan dag og gist hjá móður, maki hefði verið heima hjá þeim ásamt syni sínum. Maki sagðist hins vegar hafa farið á […] að hitta föður sinn. Verulegt ósamræmi er í frásögnum umsækjanda og maka að þessu leyti.

Af viðtölum við umsækjanda og maka má sem fyrr segir sjá að þau þekkja lítið til einstakra atriða í lífum hvors annars. Þau vissu t.d. ekki hvar hinn aðilinn er uppalinn, hvort maki þeirra hefði átt heima í öðru landi en í heimalandi og umsækjandi vissi ekki hvort maki hans hefði verið gift áður eða hvað foreldrar hennar og systkini hétu. Maki umsækjanda sagði í viðtali hjá Útlendingastofnun að henni fyndist að þessi þekking væri einn af þeim hlutum sem komi síðar. Í greinargerð sagði hún að þegar fólk hefði kynnst náið eftir stofnun hjónabands eða sambúðar þá vakni áhugi á högum hvors annars. Í upphafi sambands sé oft lítill áhugi fyrir tengdafólki. Útlendingastofnun þykir umsækjandi og maki vita afar lítið um hvort annað miðað við að hafa þekkst í fimm mánuði og búið saman í þrjá mánuði þegar viðtal við þau fór fram. Útlendingastofnun tekur fram að þrátt fyrir að umsækjandi og maki hafi getað svarað einstökum spurningum um hvort annað, eins og sjá má af viðtali en hefur ekki verið rakið hér, er það mat stofnunarinnar að þau atriði sem þau ekki þekkja í lífi hvors annars vegi þyngra enda séu þau atriði sem benda til þess að um málamyndahjúskap sé að ræða mun fleiri og veigameiri heldur en þau atriði sem benda til þes að svo sé ekki.

Það styður jafnframt grun stofnunarinnar að ljóst er að umsækjandi og maki tala ekki sama tungumál en þau segjast nota ,,google translate“ í samskiptum sínum.

Þegar litið er heildstætt á málavöxtu og gögn málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að til hjúskapar umsækjanda og maka hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla umsækjanda dvalarleyfis hér á landi. Umsækjandi og maki eiga erfitt með að eiga samskipti vegna tungumálaerfiðleika en gengu þrátt fyrir það í hjúskap eftir einungis tveggja mánaða kynni. Umsækjandi og maki vissu afar lítið hvort um annað og mundu t.d. ekki hvenær þau gengu í hjúskap. Þá var nokkuð ósamræmi i frásögnum þeirra, t.d. af afmælisdögum þeirra og giftingarhringum. Að öllu virtu er það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að um málamyndahjúskap umsækjanda sé að ræða eins og greinir í 3. mgr. 13. gr. útlendingalega og að ekki hafi verið sýnt fram á annað. Verður því dvalarleyfi ekki gefið út á grundvelli fyrrgreinds hjúskapar.

Með hliðsjón af því sem fram hefur komið er rétt að árétta að umsækjandi getur ekki talist hafa, á þeim tíma sem hann hefur dvalið hér á landi á grundvelli hjúskapar sem telst vera til málamynda, hafa myndað svo sérstök tengsl að réttlæti útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f. útlendingalaga, en að jafnaði er kanað hvort umsækjendur um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar geti öðlast annars konar dvalarleyfi, en sótt er um.

Það athugist að Útlendingastofnun leggur ávallt fram kæru til lögreglu vegna rangs framburðar og framlagningar gagna sem ætluð eru til að blekkja stjórnvald. Í máli þessu verður kæra lögð fram gegn umsækjanda.

Umsækjandi hefur ekki dvalarleyfi hér á landi og lögum samkvæmt er honum ekki heimil dvöl án þess en heimild til dvalar án dvalarleyfis er eingöngu til staðar á meðan sú umsókn sem hér er til umfjöllunar er til vinnslu. Af þeim sökum ber umsækjanda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar þessarar þar sem hann hefur ekki gilt dvalarleyfi, ella telst dvöl hans á landinu ólögmæt. Það athugist að skv. 20. gr. útlendingalaga getur ólögmæt dvöl leitt til brottvísunar og endurkomubanns til Íslands, tímabundið eða að fullu og öllu. Til að forðast frekari óþægindi er [A] beðinn um að leggja fyrir Útlendingastofnun, innan framangreinds tímafrests, flugseðil sem sýnir væntanlega för hans úr landi auk staðfestingar á greiðslu fargjaldsins. Eftir komu á áfangastað er [A] beðinn að kom afriti af brottfararspjaldi sínu til stofnunarinnar.

Í ljósi alls framangreinds er ákvarðað:

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], f.d. […], ríkisborgara X um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, er synjað. 

[A] skal yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunar þessarar.“ 

Að lokum er leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Af hálfu kæranda er m.a. tekið fram að engar röksemdir sé að finna í hinni kærðu ákvörðunar og í henni sé mikið af rangfærslum og ósanningum. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi reynt að gera hjúskap kæranda og maka hans tortryggilegan. Kærandi hafnar málatilbúnaði Útlendingastofnunar sem órökstuddum og röngum.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 (útlendingalög) og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga nr. 96/2002 og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum hinum almennu skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. útlendingalaga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. útlendingalaga ásamt hinum almennu skilyrðum 11. gr. útlendingalaga. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis en  samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga kemur fram að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti það ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna. Ákvæðið kom nýtt inn í lög um útlendinga með 2. gr. breytingarlaga nr. 20/2004 en í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur m.a. fram að skilyrði þess að neitað verði um dvalarleyfi fyrir maka á grundvelli þess, sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, verður umsækjandinn að sýna fram á annað.

Svo fram kemur í hinni kærðu ákvörðun var kæranda veitt vegabréfsáritun til Íslands þann […] og gekk um um fjórum mánuðum síðar, þann […], í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Þann 14. júlí 2011 sótti kærandi um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskaparins en þeirri umsókn var synjað með hinni kærðu ákvörðun þann 7. febrúar 2011. Byggir synjun Útlendingastofnunar á því að rökstuddur grunur í skilningi 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga sé fyrir hendi um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis á Íslandi.

Við meðferð umsóknar kæranda tók Útlendingastofnun viðtal bæði við kæranda og maka hans. Af þeim viðtölum verður ráðið að kærandi og maki hans þekkja ekki mikið hvort til annars, s.s. um einstök atriði í lífi hvors annars fyrir giftingu. Þannig má benda á að kærandi vissi ekki hvort maki hans hefði verið gift áður, hvort hún hefði stundað nám eða búið annars staðar en á Íslandi. Maki kæranda vissi ekki hvenær kærandi á afmæli eða við hvað hann vann og starfaði í heimalandi sínu áður en hann kom til Íslands. Þá gat hvorugt hjónanna ritað nafn hins auk þess sem ýmislegt ósamræmi kom fram í frásögn þeirra eins og nánar er rakið í hinni kærðu ákvörðun, s.s. um hver hafði frumkvæði að hjúskapnum og í hvaða landi giftingarhringar voru keyptir. Þá er jafnframt ljóst að kærandi og maki hans höfðu þekkst í mjög stuttan tíma er þau gengu í hjúskap eða einungis um tvo mánuði að eigin sögn. Þau skilja ekki tungumál hvors annars og kveðast tjá sig með aðstoð tölvu og handahreyfinum, auk þess sem kærandi tali nokkur orð í ensku. Þá liggur einnig fyrir að mikill aldursmunur er á kæranda og maka hans eða rúmlega […]ár.

Þegar litið er til alls framangreinds og þeirra upplýsinga sem nánar eru raktar í hinni kærðu ákvörðun og koma fram í gögnum málsins og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í undirbúningsgögnum 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, er það mat ráðuneytisins að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem hnekkt geta því mati ráðuneytisins og Útlendingstofnunar.

Þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til að afla einstaklingi dvalarleyfis hér á landi er Útlendingastofnun ekki heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins nema sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga. Telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á það í því tilviki sem hér um ræðir. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. febrúar 2012, um að synja A, fd. […], ríkisborgara X, um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, er staðfest.

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum